6. febrúar 2025
Um gæði skólamáltíða

Öll viljum við að börnin okkar fái góðan og heilnæman mat. Hádegismáltíðir í leik- og grunnskólum er þar stór þáttur.
Við hjá Skólamat erum því oft spurð út í ákveðna rétti og beðin um skýringar á vali og samsetningu rétta, innihaldsefni og næringargildi. Eitt af því sem við erum spurð að er af hverju innihaldslýsingar þurfi að vera svona langar. Stutta svarið við þeirri spurningu er það að ekki megi rugla saman uppskrift og innihaldi þeirra við innihaldslýsingar.
Innihaldslýsingar samanstanda af öllum efnum í hverju hráefni, sbr. miða sem er á umbúðum hráefna sem við kaupum í búð. Löng innihaldslýsing þarf því ekki að merkja að matur sé mikið unnin, gjörunnin eða óhollur.
Upplýsingar um matseðla, aðalrétt, meðlæti og úrval grænmetis og ávaxta ásamt næringarupplýsingum eru birtar á heimasíðunni https://www.skolamatur.is/matsedill. Viðmið um magn ákveðinna þátta er ávallt mælt sem meðaltal viku. Þannig geta ákveðnir þættir verið yfir viðmiðum einn dag en undir þann næsta. Er þetta gert til að auka möguleikann á fjölbreytni í fæðuvali og úrvali rétta.
Hver af þessum þáttum er svo birtur annarsvegar sem magn í hverjum 100 gr. af mat og hinsvegar sem magn í dæmigerðum skammti. Eðli máls samkvæmt eru skammtar og samsetning á disk nemenda mismunandi en þetta er birt svona til hægðarauka til að auðveldara sé að sjá hvað líklegt sé að fara af næringarefnum hjá hverjum og einum.
E-efni
Hluti af innihaldsefnum í mat eru svokölluð E-efni, öðru nafni aukefni. Þessi aukefni eru hluti hráefna m.a. til að tryggja gæði. Aukefni með E-númer eru hluti hráefna sem notuð eru í uppskrift. Um er að ræða fjölbreytilegan hóp efna sem eru notuð við framleiðslu hráefna til að bæta ýmsa eiginleika þeirra. Aukefni eru rannsökuð með tilliti til heilsufræðilegra þátta og fá svokölluð E-númer þegar matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) hefur viðurkennt efnin og ESB hefur sett samræmdar reglur um notkun þeirra. Í reglugerð um aukefni í matvælum er getið um hvaða efni megi nota í hin ýmsu matvæli og í hvaða magni. E-númer er því nokkurs konar trygging fyrir gæðum og öryggi þeirra efna sem bera þessi númer, í því magni sem leyfilegt er að nota. Skólamatur fer eftir þessum reglum.
Nánari upplýsingar um E-efni má finna á heimasíðu Skólamatar: www.skolamatur.is/frettir
Réttir sem Skólamatur býður upp á eru í stöðugri þróun með það að markmiði vera ávallt í samræmi við niðurstöður nýjustu rannsókna í næringar- og matvælafræði, opinberar leiðbeiningar og kröfur neytenda.
Sérfæði
Ákveðin innihaldsefni matvæla, þ.m.t. aukefni, geta verið ofnæmisvaldar hjá þeim sem þjást af ákveðnum ofnæmum eða óþoli, í sumum tilfellum er um bráðaofnæmi að ræða. Vegna þess þarf að vera mikil meðvitund um öll innihaldsefni og skrá yfir þá sem eru með ofnæmi og bráðaofnæmi. Í þeim tilfellum býður Skólamatur upp á sérfæði. Sérfæði Skólamatar er matbúið í sérstöku eldhúsi sem er aðgreint frá annarri starfsemi. Þar starfar sérhæft starfsfólk með mikla reynslu.
Matvælaöryggi
Matvælaöryggi og meðferð matvæla skiptir mjög miklu máli í allri matreiðslu. Þá þarf að fylgja ströngum reglum um rekjanleika, stýringu og skráningu hitastigs og aðstæðum við geymslu matvæla. Skólamatur leggur mikla áherslu á meðferð matvæla, geymslu og eldunaraðferðir. Hjá Skólamat starfar gæðastjóri sem er menntaður matvælafræðingur með B.Sc. í næringarfræði, menntaður matreiðslumaður sem sinnir einungis eftirliti og kennslu í mötuneytum Skólamatar, auk þess starfa hjá fyrirtækinu fjöldi annara sérfræðinga á sviði matvælaframleiðslu og reksturs mötuneyta.
Umfjöllun um skólamáltíðir
Skólamatur fagnar allri umfjöllun um gæði matarins og þjónustunnar sem boðið er uppá. Þegar boðið er upp á heilnæmar skólamáltíðir sem henta fjölbreyttum hópi nemenda þarf að taka tillit til margra þátta svo heilnæm hráefnin skili sér alla leið til neytandans. Sem dæmi má nefna að mikilvægt er að nemendum líki við bragð og áferð matarins, magn þarf að vera rétt og framsetning og ímynd matarins jákvæð. Þá skiptir umhverfi og hljóðvist miklu máli varðandi matarupplifun ásamt þeim tíma sem tekur að fá mat afhentan og hversu mikinn tíma maður fær til að matast. Ofan á þetta allt skiptir viðmót og þekking starfsfólks miklu máli.
Því er að mörgu að hyggja ef takast á að bjóða upp á skólamáltíðir í takt við kröfur nemenda og foreldra.