3. júní 2024

Skólamatur leggur sitt að mörkum við að sporna við matarsóun

Skólamatur leggur sitt að mörkum við að sporna við matarsóun

Skólamatur er fjölskyldufyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu og framreiðslu á ferskum og hollum mat fyrir börn í leik- og grunnskólum.

Nýverið bauðst Skólamat að taka þátt í spennandi norrænni ráðstefnu um matarsóun og nýtingu staðbundinna hráefna. Ráðstefnan var haldin í Riga, Lettlandi, í lok apríl og var verkefnið styrkt af Norrænu Ráðherranefndinni í samstarfi við aðila frá Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum.
Á ráðstefnunni voru kynntar niðurstöður verkefnis um þróun kennsluefnis fyrir matráða um nýtingu staðbundinna hráefna.  Auk þess var fulltrúa Skólamatar boðið að kynna starfsemi sína og þann góða árangur sem náðst hefur í að minnka matarsóun.

Helstu niðurstöður Skólamatar voru þær að frá 2017 til 2020 tókst þeim að minnka lífrænan úrgang um heil 15%. Þó jókst magn lífræns úrgangs aftur um 30% á tímum Covid-19, en árið 2023 var magn afgangs komið niður um 25% frá árinu 2017. Einnig hefur nýting hráefna batnað um 30% frá 2017, þó með smá bakslagi árið 2020 vegna Covid-aðgerða.
Árangurinn hefur náðst með skýrum markmiðum, góðri stjórnun, öflugum upplýsingakerfum og gagnasöfnun, ásamt markvissri þjálfun og samstarfi við ólíka hagaðila. Þessar niðurstöður vöktu mikla athygli á ráðstefnunni og sköpuðu líflegar umræður meðal þátttakenda.


Verkefnið sem kynnt var á ráðstefnunni heitir "NO LEFTOVER Norræn/baltnesk matargerð". Það  verkefni er stafrænt námskeið með fræðsluefni og verkfæri fyrir kennara, með áherslu á norræna og baltneska matargerð og hvernig nýta má hráefni betur. Verkefnið er styrkt af Nordplus áætluninni og er í samstarfi við nokkra aðila á Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum.


Markmið verkefnisins er að efla kennsluaðferðir í matargerð með áherslu á nýtingu hráefna og minnkun matarsóunar á öllum stigum, allt frá skipulagningu hráefna til sölu og markaðssetningar rétta. Það miðar einnig að því að finna leiðir til að nýta afganga á ábyrgan hátt.

Aftur í fréttalista