12. apríl 2022
Skólamatur hlýtur jafnlaunavottun
Skólamatur hefur hlotið jafnlaunavottun frá vottunarstofunni BSI samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST85. Vottunin er staðfesting á því að jafnlaunakerfi Skólamatar uppfylli kröfur jafnlaunastaðalsins og með jafnlaunavottuninni hefur Skólamatur öðlast heimild Jafnréttisstofu að nota jafnlaunamerkið til næstu þriggja ára.
Fanný Axelsdóttir mannauðsstjóri Skólamatar sagði í tilefni áfangans:
„Jafnlaunavottunin er mikilvægur áfangi og við fögnum því að jafnlaunakerfi Skólamatar hafi fengið jafnlaunavottun. Við í Skólamat viljum vera til fyrirmyndar í jafnréttismálum. Markmið Skólamatar er að allt starfsfólk njóti jafnra tækifæra og sé metið að verðleikum. Það er vilji og metnaður stjórnenda til að nýta jafnlaunakerfið og stuðla þannig að því að gera Skólamat að enn betri vinnustað. Jafnlaunakerfið er mikilvægt stjórntæki sem tryggir að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum sé málefnaleg og feli ekki í sér kynbundna mismunun."
Markmiðið með því að innleiða jafnlaunakerfi er að innleiða markvissar og faglegar aðferðir við launaákvarðanir til að útrýma kynbundnum launamun og hvers konar öðrum launamun sem ekki verður skýrður með málefnalegum hætti.
Hér er hægt að kynna sér jafnlaunastefnu Skólamatar enn frekar: https://www.skolamatur.is/um-skolamat/jafnlaunastefna-skolamatar