13. nóvember 2024
Skólamatur er fyrir alla
Við hjá Skólamat erum með öfluga sérfæðisdeild. Þeim sem geta ekki vegna ofnæmis, óþols, trúarbragða eða lífsstíls neytt matar af matseðli býðst að vera í sérfæði. Starfsfólkið okkar þar undirbýr mat fyrir þá einstaklinga, pakkar og sendir í skólana þar sem lokaeldun fer fram.
Sérfæðisdeildin okkar er sér eining innan Skólamatar með sitt eigið eldhús en þar starfa að meðaltali fjórir starfsmenn daglega. Maturinn í sérfæðiseldhúsinu er unnin af einstakri nákvæmni og þarfnast undirbúningur hans mikils skipulags til að tryggja að réttur matur berist réttum nemanda í réttum skóla.
Það er okkur hjartans mál að allir nemendur geti notið samskonar skólamáltíða þrátt fyrir ólíkar þarfir einstaklingana og vinna eldhúsin okkar náið saman við matseðlagerð og þróun rétta. Þetta gerir það að verkum að nánast undantekningarlaust geta nemendur sem eru með óþol eða ofnæmi fengið samskonar mat og er á matseðli en er án ofnæmisvalda.
Sérfæðisdeildin okkar undirbýr máltíðir fyrir um 1.700 börn sem eru með ólík ofnæmi/óþol en daglegur heildarfjöldi fer eftir þeim ofnæmisvöldum sem eru í matnum hverju sinni. Stærstu dagarnir eru þegar á matseðli eru réttir sem innihalda mjólk, eins og t.d. grjónagrautur og plokkfiskur. Einnig eru lasagna dagar mjög stórir þar sem að í lagsagna eru margir ofnæmis/óþolsvaldar eins og mjólk, glúten og egg. Þess má geta að á lasagna-dögum eru undirbúnar hvorki meira né minna en 6 mismunandi tegundir af lasagna til að mæta þörfum nemenda með mismunandi sérfæði.
Ekki er greitt aukalega fyrir sérfæðisþjónustu en skila þarf inn vottorði til að tryggja að einstaklingar fái fæði við sitt hæfi.
Það er okkur sönn ánægja að geta komið á móts við þarfir viðskiptavina Skólamatar.
Hér fyrir neðan má sjá skemmtilegt myndband sem veitir smá innsýn í sérfæðisdeildina okkar.