17. apríl 2023

Mikilvægi grænmetis og ávaxta fyrir börn

Mikilvægi grænmetis og ávaxta fyrir börn

Mikilvægi grænmetis og ávaxta fyrir börn

Grænmeti og ávextir eru mikilvægur hluti af heilsusamlegu mataræði og innihalda ríkulegt magn næringarefna, plöntuefna, trefja og andoxunarefna, en þessi virku hollefni eiga m.a. þátt í verndandi áhrifum grænmetis og ávaxta. Heilsusamlegt mataræði tengist almennt bættu heilsufari og getur rífleg grænmetis- og ávaxtaneysla stuðlað að eðlilegum vexti, þroska og líkamsþyngd barna, ásamt því að hafa fyrirbyggjandi áhrif gegn langvinnum sjúkdómum seinna á lífsleiðinni.

Hérlendis virðast margir borða grænmeti og ávexti daglega en flestir mættu þó auka neysluna verulega og þá sérstaklega neyslu grænmetis. Samkvæmt ráðleggingum landlæknis um mataræði þá er mælt með að borða fimm skammta af ávöxtum og grænmeti á dag eða minnst 500 g samtals og ætti a.m.k. helmingurinn að vera grænmeti. Niðurstöður úr skýrslu Rannsóknir & greining frá árinu 2019 meðal nemenda í 5., 6. og 7.bekk sýndu að hlutfallið var 74% hjá strákum sem borða ávexti einu sinni á dag eða oftar og 63% fyrir grænmeti, en hjá stelpum var hlutfallið 78% fyrir ávexti og 68% fyrir grænmeti. Hjá nemendum í 8., 9. og 10.bekk var hlutfallið um 35% meðal stráka og 42% meðal stelpna sem borðuðu ávexti einu sinni eða oftar á dag samkvæmt niðurstöðum frá árinu 2020, hlutfallið var sams konar með grænmetisneyslu en um 35% stráka borðuðu einu sinni á dag eða oftar og um 42% stelpna.

Mælt er með því að um þriðjungur af matardisknum ætti að samanstanda af grænmeti eða ávöxtum. Til þess að hvetja til aukinnar grænmetis- og ávaxtaneyslu er ráðlagt að borða grænmeti og ávexti með öllum máltíðum og sem millibita. Að sama skapi er mælt með því að borða bæði hrátt og eldað grænmeti og blanda því út í rétti til að auka fjölbreytni og hollustu. Einnig er hollráð að velja grænmeti og ávexti sem álegg á brauð, t.d. banana, epli, agúrku, papriku eða tómata. Heilsufarslegur ávinningur af aukinni grænmetis- og ávaxtaneyslu er mikill og ættu grænmeti og ávextir að vera aðgengilegir börnum heima fyrir og í skólanum til þess að hvetja til aukinnar inntöku sem og stuðla að hollum matarvenjum hjá börnum.

 

Höfundur er

Ásdís Ragna Einarsdóttir

Grasalæknir

 

Heimildir

Aune, D., Giovannucci E., Boffetta, P., Fadnes, L.T., Keum, N., Norat, T., Greenwood, D,C. Riboli, E., Vatten, L.J. og Tonstad, S. (2017). Fruit and vegetable intake and the risk of cardiovascular disease, total cancer and all-cause mortality - a systematic review and dose-response meta-analysis of prospective studies. International Journal of Epidemiology, 46(3), 1029-1056. https://doi.org/10.1093/ije/dyw319

Embætti landlæknis. (2021). Ráðleggingar um mataræði. https://downloads.ctfassets.net/8k0h54kbe6bj/3PuNBHAcqOq2PYmHJp9t5V/1917d011508f9bacb8b740f088ac722b/Radleggingar_mataraedi_vef_utgafa_2021.pdf

Margrét Lilja Guðmundsdóttir, Jón Sigfússon, Erla María Tölgyes, Inga Dóra Sigfúsdóttir, Ingibjörg Eva Þórisdóttir og Álfgeir Logi Kristjánsson. (2020). Ungt fólk 2019: 5., 6. og 7.bekkur. https://rannsoknir.is/wp-content/uploads/2020/10/Ungt-folk-5.-7.bekkur-2019.pdf 

Margrét Lilja Guðmundsdóttir, Jón Sigfússon, Erla María Tölgyes, Inga Dóra Sigfúsdóttir, Ingibjörg Eva Þórisdóttir, Þorfinnur Skúlason og Álfgeir Logi Kristjánsson. (2019). Ungt fólk 2020: 8., 9. og 10.bekkur. https://rannsoknir.is/wp-content/uploads/2020/10/Ungt-folk-8.-10.-bekkur-2020.pdf

 

Aftur í fréttalista