23. janúar 2025
Í ljósi umræðu í samfélaginu um mat í leik- og grunnskólum
Í ljósi umræðu í samfélaginu um mat í leik- og grunnskólum vildum við upplýsa ykkur um gæðaferla og verklag sem viðhaft er í Skólamat varðandi meðhöndlun matvæla og matreiðslu í skólunum sem við þjónustum.
Skólamatur vinnur skv. HACCP eftirlitskerfinu (Codex Alementarius) sem ætlað er að draga úr eða koma í veg fyrir hættur sem geta skapast við framleiðslu og dreifingu matvæla og stuðla þannig að matvælaöryggi. HACCP er kerfisbundin aðferð til að fylgjast með matvælum, aðstæðum við framleiðslu, meðhöndlun, geymslu, umbúðum, dreifingu og notkunarleiðbeiningum.
Innan fyrirtækisins starfar fjölbreyttur hópur fólks með menntun og mikla reynslu sem nýtist til þess að tryggja öruggan og góðan mat. Hér starfa menntaðir matreiðslumenn og meistarar sem sinna framleiðslu matar í miðlægu eldhúsi. Að auki er matreiðslumaður í fullu starfi sem sinnir eftirliti í skólaeldhúsum með reglubundnum eftirlitsheimsóknum. Þá erum við með svæðisstjóra sem eru tengiliðir stjórnenda við starfsfólk mötuneyta. Þeir fara einnig í reglulegar heimsóknir, sinna eftirliti og fylgja eftir ábendingum sem upp kunna að koma. Einnig erum við með gæðastjóra með meistaragráðu í matvælafræði sem sinnir daglegu eftirliti og faglegu aðhaldi.
Þegar matur kemur í skólamötuneyti fær starfsfólk þar skriflegar leiðbeiningar sem gerðar eru af yfirmatreiðslumanni og staðfestar af gæðastjóra. Á þessum leiðbeiningum koma fram upplýsingar um hve lengi matur skal eldaður, á hvaða hitastigi, hvaða ofnæmisvaldar eru í mat og við hvern skal haft samband ef upp koma spurningar eða ábendingar. Starfsfólk mötuneyta mælir hitastig á matnum eftir eldun og er ávallt miðað við að hitastig fari upp í 75°C, það er að auki skráð á sérstakt eyðublað sem staðsett er í eldhúsi skólans.
Reglulega eru haldin námskeið með starfsfólki, þar kemur starfsfólkið okkar saman, hittist og deilir reynslu. Árlega er rannsóknarstofan Sýni með námskeið um matvælaöryggi og hreinlætisfyrirtækið Tandur með fræðslu um hreinlætisferla. Sýni veitir að auki ráðgjöf um verklag og aðstöðu, kemur reglulega í óundirbúnar úttektir í miðlægt eldhús og gerir hreinlætismælingar. Tandur kemur reglulega, bæði í miðlægt eldhús og í mötuneyti og gerir mælingar á uppþvottavélum og tryggir að rétt sápu- og gljámagn sé notað og rétt hitastig sé á uppþvottavélunum.
Allt starfsfólk fer í gegnum þjálfun og skrifar undir heilsufarsyfirlýsingu þegar það hefur störf. Heilbrigðiseftirlit hvers sveitarfélags sinnir svo eftirliti í miðlægu eldhúsi og í eldhúsum skólanna.
Vonandi skýrir þetta hvernig staðið er að málum hjá okkur.
Kær kveðja,
Skólamatur