21. október 2024
Fjölbreytt og hollt mataræði
Embætti landlæknis ráðleggur okkur að borða fjölbreytt fæði í hæfilegu magni. Þó með það í huga að velja fyrst og fremst matvæli sem eru rík af næringarefnum svo sem grænmeti, ávexti, fisk, fituminna kjöt og mjólkurvörur, baunir, linsur, fræ og heilkornavörur. Takmarka hinsvegar eins og hægt er vörur sem innihalda mikið af mettaðri fitu, sykri eða salti eins og t.d. gosdrykki, sælgæti, kex kökur, snakk og skyndibita.
Grænmeti og ávextir eru mikilvægur hluti af hollu mataræði, en innihalda þau ríkulegt magn af vítamínum, steinefnum og ýmsum öðrum hollum efnum. Gróft grænmeti inniheldur þar að auki mikið af trefjum sem hafa góð áhrif á meltinguna og þarmaflóru.
Í heilkornavörum eru allir hlutar kornsins notaðir við framleiðsluna. Heilkorn er mikilvægur hluti af hollu mataræði enda góð uppspretta næringarefna og trefja sem eru nauðsynlegar fyrir heilbrigða meltingu.
Fiskur inniheldur mikið af próteini ásamt mörgum öðrum góðum næringarefnum eins og t.d. selen og joð. Feitur fiskur er einnig ríkur af D-vítamíni og löngum ómega-3
fitusýrum en þessi næringarefni eru í fáum öðrum matvælum en sjávarfangi. Þess má geta að regluleg neysla á feitum fiski getur dregið úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum.
Það er ekki aðeins feitur fiskur sem hefur jákvæð áhrif á heilsuna, heldur einnig magur en næringarinnihaldið er ólíkt og þess vegna skiptir máli að borða hvort tveggja.
Í kjöti eru mikilvæg næringarefni á borð við prótein, járn og önnur steinefni. Hófleg neysla á óunnu, mögru kjöti getur því verið hluti af hollu mataræði. Takmarka ætti neyslu á rauðu kjöti við 500 g á viku. Þetta samsvarar tveimur til þremur kjötmáltíðum á viku og smávegis af kjötáleggi. Nautakjöt, lambakjöt og svínakjöt er dæmi um rautt kjöt.
Með því að fylgja ráðleggingum um mataræði er auðveldara að tryggja að líkaminn fái þau næringarefni sem hann þarf á að halda og stuðla að góðri heilsu og vellíðan.
*Upplýsingarnar eru fengnar af vef Embættis landlæknis.